138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg gangast við því að vegna ákvörðunar virðulegs forseta verði ræða mín öðruvísi en stóð til fyrir nokkrum sekúndum síðan. Mér finnst mjög gaman í vinnunni en það verður samt að segjast eins og er að þegar maður er búinn að vera að í rúmlega 24 tíma er maður kannski ekki stemmdur til að vera í miklum sáttahug. Ég lít svo á að þessi ákvörðun, þó að hún hafi seint komið fram — ég ætla ekki að fara yfir aðdragandann og hvernig að þessum málum hefur staðið en ég eygi í henni ákveðna von, virðulegi forseti, um að við gerum það sem við hefðum átt að gera fyrir löngu síðan en höfum ekki borið gæfu til og það er að reyna að vinna saman að lausn þessa máls.

Alvarleiki málsins er að fram hafa komið málefnalegar athugasemdir sem eru mjög stórar. Það sem hefur verið mest áberandi í nótt er tvennt. Annars vegar að það virðist vera að hæstv. ráðherrar telji að fyrirvararnir sem samþykktir voru í vor séu inni í þessu nýja samkomulagi. Virðulegi forseti, það er einfaldlega ekki rétt og ég þarf ekki að fara efnislega í það í smáatriðum. Við þekkjum að ekki er lengur um það að ræða að ríkisábyrgðin falli niður árið 2024 og það er ekki lengur um það að ræða að einungis séu greidd 6% af hagvexti eins og lagt var upp með í fyrirvörunum í sumar. Í það minnsta verða menn að vera á sama stað hvað þetta varðar. Það liggur líka fyrir að viðsemjendur okkar túlka það sem svo að við séum búin að gangast við þessu, að við höfum lagalega skyldu til að gera þessa hluti sem við höfum ekki og bréf Gordons Browns er skýrt dæmi um það.

Einnig hefur komið fram málefnaleg gagnrýni og menn hafa velt upp þáttum sem varða hvorki meira né minna en stjórnarskrána. Við þekkjum líka að framkoma þjóða sem við höfum jafnvel talið til okkar helstu samstarfs- og vinaþjóða hefur verið með þeim hætti að það kallar á skýringar. Er ég sérstaklega að vísa til Norðurlandanna í því samhengi þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að sverja af sér að hafa verið í sérstöku innheimtuhlutverki fyrir Evrópusambandið, Breta og Hollendinga, eða þá sem við getum kallað viðsemjendur okkar. Þetta eru nokkur af þeim álitaefnum sem eru uppi.

Farsællegast í þessu máli hefði verið ef allir flokkar hefðu staðið þétt saman gegn þeim aðilum sem við eigum í deilum við. Af því varð ekki og er það lítil gæfa fyrir þjóðina að menn skyldu hafa farið aðra leið. Virðulegi forseti, enn er þó von. Við getum, við höfum tíma og tækifæri til að vinna þessa hluti eins og við gerðum á lokasprettinum í sumar og standa þétt saman gegn þeim aðilum sem svo sannarlega ætla að beygja okkur í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að taka þessa síðustu ákvörðun virðulegs forseta sem von um að það sé vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum að fara slíka leið. Ég fullyrði að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar eru tilbúnir til að vinna með ríkisstjórninni að farsælli lausn þessa máls. Hér er allt of mikið undir. Þetta snýst ekki um að allir séu búnir að fá nóg af þessu máli. Það má aldrei snúast um það. Þetta snýst ekki um núið heldur framtíðina. Oft tölum við þannig í hinum ýmsu málum og svo sannarlega á það oft við en aldrei sem nú.

Virðulegi forseti. Ég hvet okkur öll til að draga núna andann djúpt. Þetta er búin að vera löng törn og það væri afskaplega skynsamlegt ef forustumenn þingflokkanna settust núna niður — kannski ekki alveg núna, við sjáum á svip hv. þm. Illuga Gunnarssonar að þetta var ekki góð hugmynd og þurfti kannski ekki til — á nýjum degi eða seinna í dag setjist menn niður í rólegheitunum, fari yfir málið og meti hvernig best sé að vinna í framhaldinu þannig að sem best niðurstaða náist. Þessi vinnubrögð og kannski þessi nótt sérstaklega eru dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina og eru eins og hv. þm. Þór Saari benti á ávísun á mikil mistök og vandræði. Við höfum ekki efni á því að gera slíka hluti hér á Alþingi, allra síst í þessu stórmáli, og því heiti ég á okkur öll að vinna saman að því að leysa þetta mál. Það stendur ekki á mér eða öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.