138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að ósk stjórnarandstöðunnar á mánudagskvöldið var stuðlað að því að fjárlaganefnd kæmi saman utan þingfundartíma til að fara yfir mál sem menn höfðu áhuga á að ræða við nokkra af helstu sérfræðingum okkar á sviði stjórnskipunarréttar og tengjast því sem hér hefur verið borið upp í sambandi við stjórnarskrána. Svo geta menn hugleitt hvernig stjórnarandstæðingar, sem fengu þessari ósk sinni fullnægt, hafa síðan unnið úr og notað þá greiðasemi sem þar var sýnd. (Gripið fram í.)

Varðandi áhyggjur af því hvað þann þátt málsins varðar sem snýr að ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins held ég að það sé byggt á miklum misskilningi að þar sé á ferðinni eitthvert framsal dómsvalds sem orki tvímælis gagnvart stjórnarskrá. Það er alveg ljóst að niðurstaða íslenskra dómstóla varðandi skipti úr íslensku búi er endanleg. Það sem ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins kemur við sögu snýr að því að gangi niðurstaða íslensks dómstól í aðra átt en hið ráðgefandi álit, ryður sú niðurstaða ekki til hliðar jafngreiðsluákvæðum samninganna sem hér eiga í hlut og það hefur á engan hátt með að gera fullnaðar- og endanlegan úrskurð íslenskra dómstóla.

Síðan verð ég að segja við þá lögspekinga eða þá hv. þingmenn sem hefðu af þessu áhyggjur nú: Hvar voru þær efasemdir þegar EES-samningurinn var innleiddur á sínum tíma eða þegar Schengen-samningnum var bætt við hann? Það er að mínu mati hafið yfir allan vafa að hér er ekki ástæða til að hafa áhyggjur í þessu sambandi borið saman við það sem þá átti við.