138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

skuldastaða þjóðarinnar.

[10:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Mér er ekki kunnugt um að til séu neinar nýrri tölur en þær sem hafa verið unnar og birtast í starfsmannaskýrslunni í tengslum við fyrstu endurskoðun samstarfsáætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hafa verið unnar á grunni gagna frá Seðlabanka og fjármálaráðuneyti og fleiri aðilum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notaði í sínum samantektum. Það er rétt að þá er brúttóskuldatalan upp á 310% en það ber svo við þegar hún er brotin niður og greind og þegar nettóstaðan er skoðuð að hún er síst verri og jafnvel ívið betri en menn reiknuðu með að hún yrði t.d. um síðustu áramót. Það veldur því að í umsögn sinni um þessa skuldatölu kveður við frekar bjartsýnni tón ef eitthvað er hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sjálfum. Ég hef engar upplýsingar um að aðrar tölur séu á ferðinni. Þar er einnig að því vikið að líklegt sé að þessi tala lækki frekar en hitt þegar endanleg uppgjör á málefnum gömlu bankanna eru frá þegar búið er að sortera út málefni ýmissa eignarhaldsfélaga og svo er á það bent að drjúgur hluti þessara skulda, umtalsverður hluti þeirra 180% af vergri landsframleiðslu sem er á vegum einkaaðila eru skuldir eins erlends fjölþjóðafyrirtækis og skuldir dótturfélaga erlendra móðurfélaga á Íslandi, einkum álfélaganna, þannig að eftir standa skuldir á vegum ríkis, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila og einkaaðila sem munu reynast síst meiri en reikna mátti með þegar bankahrunið og uppgjör á þeim málum verður búið og nettóstaða landsins er ef eitthvað er ívið betri en menn reiknuðu með að stefndi í fyrir u.þ.b. hálfu ári síðan. Það er engin ein tala sem er töfratalan í þessum efnum og samanburður milli landa er mjög erfiður. Það er fyrst og fremst verðmætasköpun, þjóðartekjur og einkum útflutningstekjur sem ráða því hvaða skuldahlutföll menn ráða við.