138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

skuldastaða þjóðarinnar.

[10:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er undarlegt að halda því fram að skuldastaðan miðað við þessi 310% sem hæstv. fjármálaráðherra talaði út frá sé mun betri en menn hafi áætlað. Ekki kom það fram í umræðum eða fullyrðingum ráðherrans á sínum tíma, staðan yrði jafnvel verri en 310% svo það hlýtur að vera einhvers konar eftiráskýring. En getur ekki hæstv. fjármálaráðherra tekið undir það að æskilegt væri að þessar tölur lægju fyrir, menn væru með það á hreinu hverjar skuldir þjóðarinnar eru og hvernig við erum í stakk búin til að standa undir þeim áður en gengið er endanlega frá Icesave-málinu og væri ekki líka æskilegt að við ræddum fjárlögin og ræddum fyrirhugaðar skattahækkanir og settum það í samhengi til að átta okkur á því hvað við ráðum við, hvað við getum lagt á þessa þjóð með þessu skelfilega Icesave-frumvarpi?