138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

orð fjármálaráðherra um AGS og ESB.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði varðandi fyrirspurn hv. þingmanns. Það er alveg ljóst að það var á haustdögunum 2008 sem þetta kom fram en ég kannast ekki við og ítreka það að það séu nokkrar hótanir af hálfu ESB varðandi Icesave, IMF eða nokkuð að því er það varðar. (ÞKG: Er fjármálaráðherra að segja ósatt?) Nei, hann er ekki að segja ósatt að því er varðar haustið 2008 en þetta hefur ekki komið upp núna á síðustu mánuðum eða missirum.

Að því er varðar Icesave-deiluna er alveg ljóst að við höfum mismunandi afstöðu til hennar. Ég tel að það sé grundvallaratriði í alþjóðlegum samskiptum að við stöndum við skuldbindingar okkar, það sé grundvallaratriði í endurreisn okkar að við stöndum við skuldbindingar okkar varðandi Icesave-deiluna. (Gripið fram í: Hvað með ...?) Og það er lausn á ýmsum álitaefnum sem upp hafa komið og ýmsu sem þarf að losa hér um í efnahags- og atvinnulífinu að geta klárað þessa Icesave-deilu. Mér finnst mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að hv. stjórnarandstaða skoði hvaða áhrif það hefur ef tefja á hér fram yfir áramót að ná einhverri niðurstöðu í Icesave-málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)