138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

staðan á fjölmiðlamarkaði.

[10:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Sá sem hér er í pontu ber hag íslenskrar fjölmiðlunar mjög fyrir brjósti enda hefur hann unnið um árabil á fjölmiðlum, reyndar nær öllum fjölmiðlum landsins. Nú er staðan á íslenskum fjölmiðlum að mínu viti og margra annarra æðiundarleg og nægir þar að nefna tvö stærstu dagblöð landsins sem er ýmist stjórnað eða í eigu lykilpersóna í íslenska efnahagshruninu. Fyrir nokkrum dögum gerðist það að Blaðamannasamtökin á Norðurlöndum ályktuðu sérstaklega um þá þróun sem er að verða í fjölmiðlun á Íslandi og man ég ekki til þess að slíkt hafi gerst með svo afgerandi hætti áður í þau næstum 30 ár sem ég starfaði við fjölmiðla. Með leyfi forseta langar mig að vitna í frétt um þetta sem birtist á Eyjunni. Þar segir í ályktun norrænu blaðamannafélaganna að ástandið sé sérstaklega alvarlegt á elsta dagblaði landsins, Morgunblaðinu, en þar hafi fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri verið gerður að ritstjóra enda þótt hann sæti rannsókn fyrir hlut sinn í efnahagshruni Íslands. Hér er um blaðamannafélögin í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð að ræða.

Frú forseti. Mér þykir ástæða til að heyra frá starfandi menntamálaráðherra hver sýn hans er á þessa þróun í fjölmiðlum á Íslandi sem oft eru sagðir vera fjórða valdið og má það vel vera rétt. Deilir starfandi menntamálaráðherra þessari skoðun með norrænu blaðamannafélögunum?