138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

staðan á fjölmiðlamarkaði.

[10:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, ég held að við hljótum öll að deila áhyggjum af þróun á íslenskum fjölmiðlamarkaði með blaðamönnum og samtökum þeirra, bæði innlendum og erlendum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að rekstrarerfiðleikar og þrengri hópur sem fjölmiðlaflóran nú endurspeglar er áhyggjuefni. Starfsöryggi blaðamanna er minna en það hefur verið um árabil. Mörgum þeirra hefur verið sagt upp fyrirvaralítið. Þær uppsagnir hafa meira að segja beinst að forustumönnum blaðamannasamtakanna, formanni, varaformanni og trúnaðarmönnum og hér vantar þá heildarlöggjöf um fjölmiðla sem lengi hefur verið lýst eftir. Nú stendur svo á að menntamálaráðherra er að undirbúa frumvarp um slík heildarlög þar sem m.a. á að taka á þáttum eins og starfsöryggi blaðamanna, sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum og jafnvel að einhverju leyti að takast á við hvernig eignarhaldi fjölmiðla eigi að vera háttað til að tryggja ýmsa þá hluti sem okkur eru þar hugleiknir, tjáningarfrelsið ekki síst. Ég held að það sé full ástæða til að taka alvarlega þessi varnaðarorð. Ég tel að þau séu sögð af góðum hug. Það er verið að minna okkur Íslendinga á hversu mikilvæg sjálfstæð, óháð gagnrýni, en um leið uppbyggileg fjölmiðlun er, og við Íslendingar þurfum líka að horfast í augu við það sem blaðamanna- og fjölmiðlaheimurinn standa fyrir, að fjölmiðlar bera sína ábyrgð á þeim ósköpum sem gerðust á Íslandi. Með gagnrýnisleysi sínu, mærð á útrásina og ruglið sváfu þeir á verðinum eins og því miður allt of margir aðrir í þessu samfélagi. En nú er líka mikilvægt að fjölmiðlarnir á Íslandi bregðist ekki þjóðinni aftur og þeir verði með uppbyggilegum hætti þátttakendur í þeirri endurreisn og endurmótun sem hér þarf að verða í samfélaginu en stundi ekki stanslaust hefndarkennda niðurrifsstarfsemi, eins og því miður bólar talsvert á á sumum bæjum.