138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

staðan á fjölmiðlamarkaði.

[10:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Miðað við þá þekkingu sem ég hef á fjölmiðlafrumvarpinu eða drögum að því sem kynnt hefur verið í ríkisstjórn og jafnframt verið gert aðgengilegt fyrir fjölmarga aðila, er reynt í þeim frumvarpsdrögum að taka á mörgum af þessum álitamálum sem hér eru uppi eins vel og kostur er við okkar aðstæður, þar á meðal sjálfstæði ritstjórnar, starfsöryggi blaðamanna og ýmsu fleiru sem skiptir miklu máli. Einn þáttur þessa máls er kannski viðameiri en svo að menn hafi náð til lands hvað það varðar og það er stóra álitamálið og spurningin um hvernig á að reyna að búa um reglur um eignarhald, (ÞKG: Hvar varst þú í síðustu …?) samþjöppun eignarhalds eða krosseignatengsl í fjölmiðlaheiminum. (Gripið fram í.) Það er gamalkunnug umræða sem við þekkjum mjög vel, sum í salnum. Ég held að æskilegt sé að þetta frumvarp komi fram sem fyrst og komist til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi. (Forseti hringir.) Vonandi auðnast okkur það á þessu þingi þar sem mistekist hefur fram að þessu að ná saman um að setja slíka heildarlöggjöf og það hlýtur að verða (Forseti hringir.) til mikilla bóta.