138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

hækkun tryggingagjalds og afkoma sveitarfélaga.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að að sjálfsögðu verður sveitarfélagið sem launagreiðandi fyrir kostnaði þegar tryggingargjald hækkar. Það hefur tekist um það mjög lofsverð samstaða að atvinnutryggingagjaldið fjármagni atvinnuleysið og þannig er það einmitt hugsað. Ábyrgir aðilar meðal samtaka atvinnulífsins hafa horfst í augu við veruleikann, að útgjöld vegna atvinnulífsins hafa stóraukist og það er eðlilegast að tekjustofninn beri það eftir því sem kostur er. Að því er stefnt í forsendum fjárlagafrumvarpsins og það er í góðu samstarfi við aðila stöðugleikasáttmálans.

Ríkið hefur gripið til ráðstafana sem komið hafa sveitarfélögunum verulega til góða. Þannig má nefna að útsvarstekjur sveitarfélaganna munu væntanlega vaxa á þessu ári um 3 milljarða og jafnvel meira sem er langt umfram kostnaðarauka þeirra vegna tryggingagjalds vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar. Sú búbót kemur sveitarfélögunum mjög vel á þessu ári (Gripið fram í.) og mun væntanlega auka útsvarstekjur þeirra um, 12–14%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að framhald verði á þessari aðgerð og þá má reikna með að útsvarstekjur sveitarfélaga vaxi af þeim sökum jafnvel um 2,5 milljarða kr. þannig að sveitarfélögin eru vel sett samkvæmt þessum þætti málsins. En að öðru leyti er samstarfið við sveitarfélögin nú í góðu horfi og mun betra en það hefur verið undanfarin ár. Nú er allt nefndakerfi ríkis og sveitarfélaga virkt og fullmannað, öðruvísi mér áður brá, Jónsmessunefnd að störfum, unnið að gerð hagstjórnarsamnings milli ríkis og sveitarfélaga og þétt samstarf um það hvernig tekjulegum samskiptum þessara aðila verði háttað ásamt með öðru. Ég fullyrði að það er gerbreytt andrúmsloft í samskiptum þessara aðila og ég hygg að hv. þingmaður geti fengið það staðfest jafnvel hjá flokksbræðrum sínum sem tala nú ekki á hverjum degi hlýlega um þann sem hér stendur.