138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

hækkun tryggingagjalds og afkoma sveitarfélaga.

[10:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru athyglisverð þessi síðustu orð hæstv. fjármálaráðherra sem getur ekki setið á sér að hreyta í allt og alla. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég var með mjög einfalda spurningu um hvort til stæði að þetta yrði leiðrétt en hann gat náttúrlega ekki setið á sér og hermdi upp á hæstv. ráðherra hans eigin orð. Síðan kemur hann og segir: Jú, það á að gera það með þessum hætti. Ég fagna því að menn skuli hafa leyft að séreignarsparnaðinn verði greiddur út en þetta er einskiptisaðgerð og þetta eru líka framtíðartekjur sveitarfélaganna. Þetta er nánast eins og að segja, ef maður fær lán hjá einhverjum og ætlar síðan að greiða það til baka, að maður fari í bankann og millifæri af bankabók þess sem lánaði til að greiða skuldina. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Þetta er alveg með ólíkindum. Það sem ég er að reyna að draga upp hér, virðulegi forseti, er vandi sveitarfélaganna. Það eru mjög mörg sveitarfélög í miklum erfiðleikum. Hjá sveitarfélögunum er viðsnúningurinn á síðustu tveimur árum gífurlegur, frá því að vera 50 millj. í plús í 19 milljarða í mínus í rekstri. Ég spyr hæstv. ráðherra. Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af stöðu sveitarfélaga í landinu?