138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

hækkun tryggingagjalds og afkoma sveitarfélaga.

[10:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Jú, ég hef áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna en ég hef enn þá meiri áhyggjur af stöðu ríkisins. Viðsnúningurinn þar er miklu rosalegri þegar á hann er litið, bæði hvað varðar afkomu og skuldaþróun. Það er algerlega ljóst að það er ríkissjóður sem tekur á sig allan meginþungann af hinu gríðarlega efnahagsáfalli. Það sýna allar kennitölur okkur. En auðvitað er vandi sveitarfélaganna líka mikill þótt mismunandi sé og við munum leita leiða til að gera stöðu þeirra eins þolanlega og kostur er, þar á meðal að leita leiða til að bæta stöðu þeirra sérstaklega vegna seinni hækkunar tryggingagjaldsins. Það höfum við gefið fyrirheit um og við það verður staðið. Við höfum gripið til ráðstafana eins og þeirra að gera upp að fullu húsaleiguskuldir og í það fara á 7. hundrað milljóna kr. á fjáraukalögum þessa árs. Þar stendur ríkið aftur við sinn hlut í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ekki var gert áður og síðustu fjárlögum var lokað án þess að tekið væri á þeim vanda, svo dæmi sé tekið.