138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

aukning aflaheimilda.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa góðu spurningu. Varðandi síldina sem hv. þingmaður vék að þá er mjög ánægjulegt að það skyldi vera hægt að gefa út heimildir til veiða á síld. Það leit ekki svo vel út með það síðla sumars að slíkt væri hægt vegna mikillar sýkingar og stofninn líka metinn ekki það stór að hann bæri bæði sýkinguna og veiðina. En við rannsóknir í haust kom í ljós að grunnstofninn reyndist vera stærri en áætlað var og var þá ákveðið að gefa út þessar aflaheimildir upp á 40 þús. tonn.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að síldin lítur að mörgu leyti betur út, að því að tjáð er, en búist var við og hefur nýst mjög vel. Nú er þessi kvóti að verða búinn eins og hv. þingmaður vék að og þá er spurt um framhaldið. Ég get svarað því til að ráðuneytið mun funda með Hafrannsóknastofnun væntanlega núna á föstudaginn eða öðru hvorum megin við helgina og fara yfir stöðu þessara mála. Rannsóknir eru enn í gangi og fylgst er með hvernig síldarstofninn aktar sig, bæði heilbrigði og útbreiðsla. Vissulega væri ánægjulegt ef hægt væri að auka við aflaheimildir í síldinni en við munum fara yfir þessi mál um og eftir helgina eða í byrjun næstu viku og meta þá stöðu.

Ég vil líka geta þess af því að ég stend hér að það er mjög ánægjulegt, og ég kem kannski að því í seinna andsvari mínu ef hv. þingmaður víkur enn þá frekar að þessu máli, að þá vildi ég líka segja frá makrílnum.