138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

aukning aflaheimilda.

[11:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tel að skilja megi svar ráðherrans svo að hann sé alla vega tilbúinn að skoða það að auka aflaheimildirnar að því gefnu að hann sé þá búinn að ráðfæra sig við Hafró. Eins og ég nefndi í upphafi fyrri ræðu minnar hefur hæstv. ráðherra þegar sýnt að hann er tilbúinn til að auka aflaheimildir á skötuselnum umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar, þannig að það má þá kannski telja að það sé möguleiki á þessu líka. Ég hef mikinn áhuga á að heyra einmitt um makrílinn og svo hafa mælingarnar á þorskinum verið að koma ágætlega út, stofninn hefur reynst stærri og verið betri þó að árgangurinn sé í meðallagi. Ef ráðherrann hefði tíma til þegar hann er búinn að ljúka sér af í makrílnum, þá væri ágætt að heyra aðeins um þorskinn líka.