138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vildi undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, — vegna þess að það kom skýr krafa frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um að hér yrði fundað sleitulaust og vegna þess að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og fleiri hafa kallað fram í að þetta hafi viðgengist og svona hafi hlutirnir verið og því sé engin ástæða til að breyta því, sama hvort fólk sé komið til valda með miklar fyrirætlanir, en látum það liggja á milli hluta — fá að lesa í örstuttu máli úr ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi stjórnarandstæðings, sem segir, með leyfi forseta:

„Ég tek undir ósköp sanngjarnar og í raun hógværar óskir um að það verði eitthvað upplýst um þinghaldið, hvað sé fyrirhugað.“ — Síðan heldur hann áfram: „... menn búnir að vera að störfum síðan átta eða hálfníu í morgun á nefndarfundum og síðan samfelldum þingfundum … Gott og vel, þá vinna menn í samræmi við það en þá er líka eðlilegt að þinghaldið sé með nokkuð reglubundnum eða manneskjulegum hætti þannig að menn fái lágmarkshvíldartíma og annað í þeim dúr.“

Síðar í lok þessarar ræðu leggur hv. þingmaður til, og það er (Forseti hringir.) spurning hvort einhver hafi fengið góðar hugmyndir þar, að menn skipti sér í vaktir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að virða tímamörk.)