138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef litlar athugasemdir við fundarstjórn forseta nema ef vera skyldi að ég tel að fundur hefði átt að standa eilítið lengur inn í morguninn. Hins vegar kem ég hingað eins og ég hef gert áður til að verja rétt stjórnarandstöðunnar til að fá að tala. Það er réttur stjórnarandstöðunnar að láta í ljósi sínar skoðanir og koma fram með öll rök. Hér voru í gær og í nótt fluttar býsna góðar ræður af sumum þingmönnum stjórnarandstöðunnar og ég hafði bæði gagn og ánægju af því að hlýða á þær. Hins vegar ef staðan er þannig að stjórnarandstöðunni er mikið mál að tala mjög mikið er það réttur hennar en honum fylgja líka ákveðnar skyldur. Ef menn vilja fá að notfæra sér þennan rétt hljóta þeir að vera reiðubúnir til að sitja á löngum fundum til að koma þessu á framfæri sem þeir hafa að segja og gefa stjórninni líka kost á því að koma fram mikilvægum þjóðþrifamálum. (Forseti hringir.) Það er sanngirni, frú forseti.