138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það voru nokkrir við umræðuna í nótt, þar á meðal sá sem hér stendur, frá því kl. 6 í gærkvöldi til kl. 6 í morgun. Ég er bara furðusprækur og þrátt fyrir töluverða ómegð komst ég yfir þetta allt saman. Ég saknaði þess mjög í þessa 12 tíma sem ég sat hér og gekk um sali (Gripið fram í.) að eitthvað nýtt og afgerandi kæmi fram í umræðunni sem varpaði nýju ljósi á Icesave-umræðuna. Ég beið í 12 tíma (Gripið fram í.) eftir nýjum upplýsingum sem varpa mundu nýju og afgerandi ljósi á Icesave-umræðuna. Ég ætla að bíða aftur í nótt og ég mun tilkynna það þegar ég heyri fyrstu nýju afgerandi tíðindin sem varpa nýju ljósi á Icesave-umræðuna fyrstur manna í þessari pontu en ég bíð enn.