138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvernig frú forseti hefði brugðist við ef ég eða einhver annar úr röðum minni hlutans á Alþingi hefði byrjað ræðu sína á því að segjast ekki ætla að tala um fundarstjórn forseta undir liðnum fundarstjórn forseta og skora ég á virðulegan forseta að gæta jafnræðis í meðferð sinni á stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum.

Hér var fullyrt að engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram í nótt. Það fullyrti hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Ég get hins vegar viðurkennt að ég sjálfur, þrátt fyrir að hafa fylgst ágætlega með þessu máli í meira en ár, heyrði í nokkur skipti nýjar og fróðlegar upplýsingar í umræðunum í nótt. Og fyrst nafni minn, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, er svona vel að sér í þessu máli getur hann e.t.v. tekið það að sér að útskýra það fyrir samflokkskonu sinni, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem á þeim stutta tíma sem hún treysti sér til að tjá sig um málið hér, upplýsti að hún þekkir ekki a.m.k. þrjú grundvallaratriði málsins.