138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Undir liðnum um fundarstjórn forseta koma upp ýmist stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar og benda á fordæmi úr fortíðinni, um hvernig menn hafa farið með það vald sem minni hlutinn hefur ævinlega á Alþingi og þann möguleika sem hann hefur til að hafa áhrif á umræður. Ég held að á engan sé hallað í þeirri umræðu. Ég held að við getum verið sammála um að það er sjálfsagður réttur sem minni hlutinn hefur og hann hefur verið nýttur á liðnum árum af öllum flokkum. Ég held að við ættum að hætta að ræða um það. Þjóðin er að bíða eftir því að við þingmenn, við öll sem vorum kosin af þjóðinni til að gæta hagsmuna hennar, förum núna í brýn verkefni og tökum þetta Icesave-mál til hliðar því að það er mikill ágreiningur um það bæði í þingsal og á meðal þjóðarinnar. Förum betur yfir það (Gripið fram í.) og sinnum þeim málum sem eru brýn. Við í stjórnarandstöðunni erum klárlega tilbúin að taka þau á dagskrá. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það og ég held að forseti (Forseti hringir.) ætti að skoða það í forsætisnefndinni og þá með hæstv. ríkisstjórn.