138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi samanburð á „junk bond“ vöxtum og Icesave-vöxtunum, 5,55%, ofurvöxtunum, þá verður að segja að þeir „junk bond“ vextir sem ég nefndi eru skammtímavextir en Icesave-vextirnir eru langtímavextir og eru þar af leiðandi hærri. En það munar ekki því. Ef við erum að velta því fyrir okkur að fá lélegt lánshæfismat í 1–2 ár, á meðan gjaldeyrisjöfnuðurinn er að ná sér upp, getur vel verið að það borgi sig að borga ruslbréfavexti á öll okkar lán frekar en að taka yfir þessa gífurlegu skuldbindingu á Icesave.

Varðandi nýju reglugerð ESB um innlánstryggingar er rétt að það er ríkisábyrgð samkvæmt henni á öllum innlánum. Ekki er búið að taka hana upp í EES-samkomulagið. Það er næsti þáttur í næstu ræðu minni, frú forseti, ef ég kemst að, af því að ég er alltaf að reyna að koma með eitthvað nýtt.