138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í skoðun hans á erindi sem Norræni fjárfestingarbankinn hefur sent nokkrum sveitarfélögum og Lánasjóði sveitarfélaga um að vextir á þeim lánum sem komin eru til endurskoðunar yrðu hækkaðir umtalsvert. Það er frétt þessa efnis í Fréttablaðinu í morgun. Ástæðan væri verra lánshæfismat.

Þá vil ég líka spyrja hann út í þá fullyrðingu sem kemur úr bréfi Seðlabanka Íslands til forsætisráðherra þann 9. október 2009 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi er líklegt að lánshæfismat Íslands verði lækkað náist ekki sátt í Icesave-deilunni og endurskoðun efnahagsáætlunar tefjist þess vegna. Þessu til viðbótar gæti reynt á ákvæði í lánasamningum íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga og torveldað endurfjármögnun þeirra á næstu árum. Það yrði jafnframt erfiðara fyrir fjármálastofnanir að ná undir sig fótunum á ný. Það sama á við um aðgengi ríkissjóðs að erlendum lánsfjármörkuðum.“

Telur hv. þingmaður að svona ástand sé í lagi í 1–2 ár?