138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:03]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta sýnir fyrst og fremst hversu ábyrgðarlaus málflutningur stjórnarandstöðunnar er í þessu máli. Þetta er sambærilegt því að koma húsgögnum fyrir í nýju húsnæði og leggja síðan parketið á eftir. Það er alveg ljóst að áhrifin af því að Icesave fari ekki í gegn eru á þann veg að það hefur strax áhrif á lánshæfismatið og á alla þætti samfélagsins, allt efnahagsumhverfi landsins á næsta ári. Þess vegna er þetta tilboð stjórnarandstöðunnar, um að ýta Icesave til hliðar, til að hægt sé að afgreiða fjáraukalög, fjárlög og skattamál, algerlega út í hött. Það sýnir fyrst og fremst þá staðreynd að stjórnarandstaðan hefur engan áhuga á því að ríkisstjórninni takist að fara með þetta mál í gegn. Hún hefur engan áhuga á því. Hún hefur bara áhuga á því að koma ríkisstjórninni frá. Það er allt og sumt. (Gripið fram í: Þið eruð að taka þátt í því.)