138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ræddi það einmitt í nótt að það gæti verið flötur að Alþingi tæki málið yfir og sendi nýja samninganefnd til útlanda með bestu sérfræðingum í heimi til að semja upp á nýtt við Breta og Hollendinga. Þá getur hæstv. fjármálaráðherra sagt við Breta og Hollendinga: Ég reyndi hvað ég gat. Ég náði þessari ríkisábyrgð ekki í gegnum Alþingi. Ég sé því heilmikil tækifæri, frú forseti, í því að gera nýjar breytingar á þessu. Það hefur komið í ljós að það liggur ekkert á þessu frumvarpi. Það eru búnar að vera nokkrar dagsetningar þar sem allt átti að hrynja en svo hrynur ekki neitt. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það hefur komið í ljós að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að halda áætlun sinni pikkfastri og heldur sínu striki og það yrði mjög undarlegt ef þeir færu eitthvað að hreyfa sig núna af því að þeir eru búnir að lýsa því yfir að Icesave hafi ekkert að segja í þeirra áætlun hvort sem menn trúa því eða ekki.

Það er þannig ekkert sem ýtir á þetta mál og nú þurfa menn að taka höndum saman um að afgreiða skattalagafrumvarp helst á skattlagningu séreignarsparnaðar sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt. Ég held að það sé langsamlega besta lausnin á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag að komast yfir þá gjá sem hefur myndast. Þjóðin þarf að komast yfir hana og eftir það blasir framtíðin við.