138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða svar. Það er augljóst að þar fer fulltrúi sem talar okkar máli á erlendum þingum, vegna þess að það komu líka fram í umræðunni athugasemdir frá hæstv. utanríkisráðherra í gær að þeir þingmenn sem væru sendir eða færu á svona fundi, væru ekki allir að gæta hagsmuna Íslands í þessu máli og ekkert endilega að halda sjónarmiðum okkar á lofti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi upplifað slíkt, af því að ég veit að hún hefur verið í ferðum hjá NATO og fleiri stöðum, hvort hún hafi upplifað það og geti staðfest það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðustól Alþingis í gær í andsvörum við mig, að mig minnir, að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir, væru ekki á þeim buxunum þarna úti að ræða um Icesave og halda hagsmunum okkar á lofti. Það væri bara ágætt að fá það beint í æð frá hv. þingmanni.

Það er líka áhugavert að heyra af þessum viðbrögðum erlendra þingmanna við málflutningi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur á erlendri grundu, og það væri kannski ágætt að fá aðeins betur fram frá hvaða löndum þessir menn voru sem hv. þingmaður hefur átt viðræðu við og kannski aðeins betur hver viðbrögðin eru. Er það þannig að menn viti bara alls ekki neitt um hvað málið snýst? Eða er málið þannig, sem mig kannski grunar, að menn hafi einhverjar óljósar hugmyndir um stöðuna og haldi jafnvel að öll málin séu afgreidd, þ.e. lánin til okkar hafi verið afgreidd og að Icesave sé í rauninni augljóslega allt á okkar ábyrgð o.s.frv.? Bara þannig að við sem hér stöndum og höfum ekki verið í slíkum utanlandsferðum, fáum aðeins tilfinninguna fyrir því og það sé fært í bækur Alþingis, í þingtíðindin, þar sem aðdróttanir hafa komið um annað frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, að þingmenn standi sig ekki í stykkinu og hafi engan áhuga á að tala um þetta mál nema þá hér í meintu málþófi.