138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu. Ég hef í raun og veru kynnt mér þetta mál ágætlega og held að við ættum að skoða alla möguleika á samstarfi. Ég heyrði það einmitt út undan mér, m.a. meðal Evrópuþingmanna sem ég rakst á frá Þýskalandi, að þeir töldu að þetta væri ekki góður tími fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þó svo að þeir væru hlynntir því. Þeir töldu að við þyrftum fyrst að taka til í okkar bakgarði og eiga þá væntanlega fyrst og fremst við að við klárum rannsóknina á hruninu, komum á alvöruregluverki. Það virðist hafa gleymst að þó að við séum í EES getum við væntanlega alltaf spunnið við sterkari fyrirvara eða sterkari reglugerðir og mér finnst það svolítill ábyrgðarhluti að varpa ábyrgðinni frá því að fyrrverandi yfirvöld hefðu átt að hafa augun opnari. Ég held að þar megi að einhverju leyti kenna um verklaginu á þinginu því að það er algjörlega meingallað, eins og við þekkjum sem störfum hér, konur og mæður, að það er náttúrlega ekki hægt að bjóða fólki upp á svona starfsumhverfi. Þá er ég ekki að tala um þetta málþóf, heldur er ég hreinlega að tala um möguleikann á að halda sér upplýstum sem þingmanni, hann er ekki nægilega góður eins og mér er tíðrætt um. Og nú skora ég á alla þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að koma með mér í það verkefni að tryggja að endanlega verði gengið frá þessu þingmálahalaniðurskurðardæmi eins og hverjum öðrum hryllingsbandormi. En nú er lag að við þingmenn vinnum saman, nú er lag að laga hlutina hérna. Þeir eru meingallaðir.