138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mína ræðu á þeim stað sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir endaði, nú þarf þjóðin að standa saman. Framsóknarflokkurinn hefur farið fram á að við stöndum saman um hagsmuni þjóðarinnar, að við stöndum saman með þjóðinni okkar, með fjölskyldunum í landinu sem eiga um sárt að binda og um þá einingu sem heitir heimili. Því er ekki að heilsa. Ríkisstjórnin fer fram með þessi mál eins og alþjóð veit. Við erum hér sjötta mánuðinn í röð að ræða Icesave-samningana sem þingið átti ekki einu sinni að fá að sjá í upphafi því hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri komin svo glæsileg niðurstaða í þetta mál að það væri óþarft að sýna þingi eða þjóð þá niðurstöðu sem samninganefndin fékk upphaflega.

Það er grátlegt að við skulum þurfa að vera hér með klofinn þingheim. Þetta sýnir kannski hverjir það eru sem þykir vænt um þjóðina sína því eins og komið hefur fram áður hjá mér í ræðu ættum við þingmenn að standa 63 með íslensku þjóðinni á móti Bretum og Hollendingum en ekki helmingurinn með Bretum og Hollendingum og helmingurinn á móti þeim. Þetta er sorglegt og ég held að þingmenn ættu að reyna að rifja upp með sjálfum sér þá samstöðu sem myndaðist hér í þorskastríðunum við Breta í kringum 1978 þegar þjóðin og þingið stóðu saman á móti ægivaldi Evrópu. Við værum enn þá fyrir innan 12 mílurnar ef þjóðin hefði ekki sýnt samtakamátt sinn í því máli og þeir þingmenn sem sátu á þingi fyrir þjóðina, þjóðkjörnir með þjóðinni en ekki á móti henni.

Það var mikil framför á þeim tíma en nú koma Bretar á ný og ætla að reyna að höggva þessa þjóð. Þeir ætla að komast yfir náttúruauðlindir okkar, þeir eru komnir með Icesave-samning sem er með veð í náttúruauðlindunum og friðhelgisréttindunum því eins og ég hef bent á áður er búið að skera fyrirvarana niður og setja þá inn í viðaukasamning við Icesave-samningana og þar af leiðandi gilda um samningana breskir dómstólar. Þrátt fyrir það hér séu ákvæði um að samningsaðilar staðfesti að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum o.s.frv. í Icesave-samningunum sjálfum sé það skilningur samningsaðila að það sé ekki samkvæmt viðaukasamningunum. Þó að samningsaðilar séu sammála um einhverja ákveðna hluti gildir það sem stendur í samningnum og ef reynir á ágreining í samningi eru það dómstólar sem ákveða hvort sú sýn reynist rétt. Þess vegna er ekkert tryggt í þessu og ekki heldur með auðlindirnar, hæstv. utanríkisráðherra.

Í stað þess að ríkisstjórnin komi hingað upp og berji fólki von í brjóst í jólamánuðinum — aðventan er komin — kemur hæstv. forsætisráðherra trekk í trekk og lýsir yfir hörðum frostavetri. Er þetta það sem þjóðin þarf nú þegar skammdegið er sem mest og fleiri hundruð ef ekki þúsundir fjölskyldna geta ekki greitt af lánum sínum? Þetta er óásættanlegt. Þetta er ekki sú ríkisstjórn sem ég vil sjá starfa hér og þessi ríkisstjórn heldur áfram með hótanir.

Mig langar að rifja upp að kostnaðurinn við ESB-umsóknina er áætlaður þúsund milljónir — einn milljarður. Framboðið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kostaði líka þúsund milljónir — einn milljarð. Nú er komið í ljós að það að vera inni í ESB kostar 20 milljarða á ári. Hugsið ykkur upphæðirnar sem hér liggja fyrir á meðan hæstv. ríkisstjórn eyðir ekki krónu í að kynna málstað okkar í þessu Icesave-máli fyrir erlendum þjóðum. Þetta er vanræksla, forseti. Þetta er helber vanræksla ríkisstjórnar að haga sér með þessum hætti. Hvers vegna tekur ríkisstjórnin sig ekki til og fer í kynningarátak, eins og ríkisstjórnin ferðast nú um Evrópu til að kynna umsóknaraðild okkar að Evrópusambandinu?

Þar sem tíminn líður svo hratt langar mig að vitna í ræðu hæstv. forsætisráðherra frá því 28. ágúst þegar Icesave-samningarnir voru samþykktir. Þeir urðu að lögum og voru þar með afgreiddir frá hinu háa Alþingi Íslendinga. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum. Þetta verður verkefni ríkisstjórnarinnar í kjölfar samþykktar laganna, samanber breytingartillögu við 1. gr. laganna …“

Síðan las hún upp það sem stendur í henni. Eins og ég hef bent á áður í ræðum mínum var það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að það ætti að kynna þessi lög og þá fyrirvara fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum sem fyrir lágu. Ég spyr: Hvað breyttist hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra? Hvað breyttist? Hví stöndum við hér nú og höfum staðið lengi með breytingartillögu að þessum lögum? Hvers vegna? Frú forseti. Ég held að ég fái hreinlega aldrei svar við þessari spurningu. Þetta er tekið beint upp úr ræðu hæstv. forsætisráðherra frá því 28. ágúst í sumar og nú sé ég að hún gengur í húsið.

Ég ætla að halda áfram að vísa í þessa ræðu. Hún segir síðar, með leyfi forseta:

„Eftir 10 vikna umfjöllun er nú komið að því að Alþingi afgreiði málið fyrir sitt leyti. Allt hefur sinn tíma og það er von mín að þegar upp er staðið eftir þessa löngu sumarsetu snúi alþingismenn bökum saman og tryggi málstað Íslands framgang sem einn maður. Sú breiða pólitíska samstaða sem náðst hefur á Alþingi um málið er okkur ákaflega dýrmæt og hún er það veganesti sem við reiðum okkur á í framhaldinu.“

Hæstv. forsætisráðherra, hvaða veganesti var það? Hví var komið heim með samningana á nýjan leik? Hvaða blekkingaleik var þingið beitt í sumar með þessum orðum? Hvaða upplýsingar voru það sem ríkisstjórnin hafði ekki í höndunum þegar þessi lög voru samþykkt 28. ágúst? Út af hverju var ríkisstjórnin svona vongóð um að Bretar og Hollendingar mundu samþykkja fyrirvarana eins og þeir lágu fyrir? Það skyldi þó ekki hafa verið sambandsleysi milli Breta og Hollendinga annars vegar og Íslendinga og íslensku ríkisstjórnarinnar hins vegar? Ég kallaði oft í ræðum mínum í sumar eftir því hvort búið væri að hafa samráð við þá. Þá var viðkvæðið: Nei, Alþingi er sjálfstæð löggjafarstofnun og tekur ekki við skipunum frá Evrópu. Þetta voru svörin og nú hefur komið í ljós að lögin í sumar voru sett á vonum og væntingum ríkisstjórnarinnar. Því segi ég: Hið nýja frumvarp sem nú liggur fyrir byggir auðvitað einnig á vonum og væntingum þessarar ríkisstjórnar sem ræður ekki við stjórn landsins.

Mig langar að grípa aftur niður í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég sé hún hefur gengið úr þingsal og ætlar sér ekki að svara fyrir þetta. Vonandi hef ég þá tækifæri til að spyrja hana að þessum spurningum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á næstu dögum. Hæstv. forsætisráðherra segir:

„Ég hef áður sagt og ítrekað að þessir fyrirvarar eru í stórum dráttum þess eðlis að hvert þjóðþing mundi telja sér fært að setja sambærileg öryggisákvæði til að leggja áherslu á að ekki megi skerða fullveldi þjóðar sinnar og tiltekna grundvallarhagsmuni eins og framtíðarefnahag þjóðarinnar.“

Frú forseti. Þegar ég rifja þetta mál upp og les þessi orð er ég orðlaus. Hæstv. forsætisráðherra vantaði ekki viljann í verki í sumar með miklum yfirlýsingum. Þetta kemur fram í ræðu hennar sem var aðfararæða að þeirri atkvæðagreiðslu sem fór fram hér á Alþingi. Þarna kemur fram að hún telji að ekkert þjóðþing mundi setja sér annað öryggisákvæði en Alþingi Íslendinga setti sér í sumar. Það er búið að draga það til baka. Þetta gæti verið, frú forseti, fullyrði ég, afsagnaratriði ríkisstjórnar í þeim löndum sem við berum okkur saman við dags daglega. Ég skil ekki út af hverju þessi ríkisstjórn er ekki farin frá.