138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins halda áfram að ræða um þennan efnahagslega fyrirvara eða þann hluta efnahagslega fyrirvarans sem lýtur að því hvað eigi að gerast þegar þessu 15 ára lánstímaferli sem kveðið er á um í lögunum er lokið.

Gert var ráð fyrir því í þessum lögum að í lok þess samningstíma færu fram viðræður milli Íslendinga, Hollendinga og Breta. Nokkrar umræður urðu um það hér í þinginu á þessum tíma hvað þetta nákvæmlega þýddi, hvort þetta þýddi að þar með væri ábyrgðinni lokið eður ei. Ég var sjálfur þeirrar skoðunar að þar með væri þessari ábyrgð lokið og það væri þá hlutverk Breta og Hollendinga á þeim tíma að sækja á okkur um að framlengja þennan tíma. Hæstv. forsætisráðherra var mjög skýrmæltur þegar kom að þessu máli í ræðu sinni sem flutt var við lokaafgreiðslu málsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði bókstaflega að það væri verkefni Alþingis þegar þar að kæmi, þ.e. eftir þessi 15 ár, að taka ákvörðun um með hvaða hætti yrði tekist á við Hollendinga og Breta í þessum efnum. Það var ekkert í þessum fyrirvörum sem laut að því að þessi mál yrðu tekin upp einum eða tveimur mánuðum síðar líkt og ríkisstjórnin kaus að gera. Það er augljóst að hæstv. forsætisráðherra hefur gengið á bak orða sinna sem féllu við lokaafgreiðslu málsins þegar hæstv. forsætisráðherra túlkaði niðurstöðu Alþingis með mjög afdráttarlausum hætti.

Það skiptir gríðarlega miklu máli þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi að vita hver var hugur og túlkun hæstv. forsætisráðherra á þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra túlkaði þessi mál mjög skýrt á sínum tíma en hefur greinilega látið undan síga í viðskiptum sínum við samningsþjóðir okkar. Hollendingar og Bretar hafa beygt hæstv. forsætisráðherra eins og ríkisstjórnina í þessum efnum, eins og öllu sem kemur að Icesave-málinu, og bæta svo gráu ofan á svart með því að gera grín að forsætisráðherra okkar (Forseti hringir.) með því að svara ekki einu sinni bréfum.