138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:08]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég var einmitt stödd í fjárlaganefnd þar sem ég gekk út með bunka af nefndarálitum úr efnahags- og skattanefnd og ég held að það hafi nú verið fyrir leti framsóknarmannsins að þau voru ekki fimm. Þessi vinnubrögð sem þingmaðurinn lýsir eru ekki til fyrirmyndar og ég talaði um í gærkvöldi að mér fyndist stundum eins og stjórnarliðar væru með strútsheilkenni, vildu bara stinga hausnum ofan í sandinn og ekki skoða málið frekar, það væri búið að þrýsta þeim út í horn og þeir gætu ekki tekið aðra afstöðu en þá sem ætlast er til af þeim. Ég vona að ég móðgi engan með þessum orðum mínum.