138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Herra forseti. Það er herra í forsetastól að þessu sinni.)

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir mjög kjarnyrta ræðu þar sem í mörgum tilvikum var komist að kjarna málsins. Hv. þingmaður nefndi hæstv. forsætisráðherra og orð hans í morgun. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi tekið eftir því þegar hæstv. forsætisráðherra hélt því fram í nokkur skipti í þingsal í morgun að við yrðum að samþykkja þær kröfur sem á okkur eru gerðar núna af hálfu Breta og Hollendinga, vegna þess að við þyrftum að standa við skuldbindingar okkar. Hvernig finnst hv. þingmanni þetta fara saman við það sem ríkisstjórnin hefur að undanförnu haldið fram opinberlega um að hún hafi reynt að benda yfirvöldum í Bretlandi og Hollandi á að okkur bæri í rauninni ekki lagaleg skylda til þess að greiða þessa reikninga? Ríkisstjórnin hefur jafnframt haldið því mjög á lofti að hún hafi sett þarna inn einhvers konar lagalegan fyrirvara sem eigi að felast í því að við könnumst ekki við ábyrgð okkar á þessum reikningum, þ.e. ábyrgð ríkisins. En svo kemur hæstv. forsætisráðherra í ræðustól og segir að við verðum að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga til að standa við skuldbindingar okkar. Hvernig fer þetta saman og hvað segir þetta okkur um þann sannfæringarkraft sem hefur verið í viðræðum íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga?

Annað sem vakið hefur athygli í málflutningi stjórnarliða við það að reyna að verja það frumvarp sem hér er lagt fram er þegar því er haldið fram að það sé í rauninni betra eftir að Bretar og Hollendingar eru búnir að breyta fyrirvörunum, í rauninni séu þeir jafnvel sterkari. Hvað segir svona málflutningur um þá sem hann viðhafa, að mati hv. þingmanns?