138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:50]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sama hvar er í hinum vestræna heimi, þar sem rekstur fyrirtækja fer úrskeiðis, rekstur heimila, rekstur í samfélagi sem byggir á lögum og rétti, að allir aðilar hafa ákveðinn rétt. Þjóðarrétturinn er líka sterkur. Hann er það sem gildir fyrst og fremst og það er engin spurning að það er verið að keyra á íslenska þjóð. Og þegar hæstv. forsætisráðherra segir að við verðum að samþykkja vegna skuldbindinga er ekkert sem fylgir því. Það er ekkert sem fylgir því, vegna þess að auðvitað standa Íslendingar við sínar skuldbindingar, en ég sagði fyrr í ræðu minni að það veit enginn enn þá hvað er rétt í þessu máli. Og það er lágmark að það liggi fyrir áður en menn fara að splæsa peningum og deila þeim út úr vasa samfélagsins, úr vasa þjóðarinnar, að vilja útlendinganna. Það er það sem gengur ekki. Það er það sem gengur ekki upp. Þess vegna eigum við í þessari stöðu — leikurinn er ekkert búinn — að sækja fast og keyra á rétti okkar gagnvart NATO, gagnvart Evrópubandalaginu, gagnvart Norðurlandaráði, og kæra Breta og Hollendinga fyrir árás á Ísland fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Við eigum að kæra þá. Við stöndum í stríði við Breta og Hollendinga sem vilja mala okkur niður í duftið og við eigum ekkert að gefa eftir, ekki tommu eftir. Til þess eigum við að nota þann rétt sem við höfum, að nota þau rök sem við höfum, nota þá vörn sem þarf að verja heimilin á Íslandi, fyrirtækin (Forseti hringir.) og íslenskt samfélag í heild, sjálfstæði Íslands inn í framtíðina.