138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir hans orð. Ég er einmitt með þessu sömu greinargerð og er að glugga í hana. Vissulega eru þetta þungar ásakanir sem þingmaðurinn ber fram en ég treysti honum fullkomlega fyrir því sem hann segir þar sem menntun hans og reynsla er mjög víðtæk, að ef þetta er ekki reist á réttum grunni breytast allar forsendur.

Sem dæmi má nefna að í töflu III á blaðsíðu 14 í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að staða þjóðarbúsins 2009, án gömlu bankanna, er 3.322 milljarðar í erlendum skuldum alls. Fulltrúar Seðlabankans komu á fund þingflokks Framsóknarflokksins og þarna er t.d. um villandi tölu um að ræða, því að þarna er ekki búið að taka inn Icesave-skuldbindingarnar, eðlilega ekki, því að þær eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en 2016, en það sem verra er að inn í þessa tölu vantar lánin frá Norðurlöndunum og Póllandi líka. Þarna er því hægt að bæta við 720 milljörðum og þessi tala fer í 4.500 milljarða. Opinberar tölur varðandi 2009, ef gömlu bankarnir eru inni, eru 14.000 milljarðar og fulltrúar Seðlabankans bentu á að ef gömlu bankarnir þyrftu að yfirtaka þá nýju, mundi staðan við útlönd vera með þessum hætti og með þennan mínus. Og nú er víst Kaupþing komið í eigu lánardrottna, þannig að það er búið að afstýra einhverri hættu, þ.e. ef það gengur eftir.

Oftast er svo með skuldastöðu þjóða þar sem er gegnumstreymiskerfi lífeyrissjóðsgreiðslna og ríki hafa lent í greiðslufalli að skuldastaða þjóðarbúsins eykst. Nú vill svo til að hér á landi er öflugt lífeyriskerfi, eða svo er okkur er sagt, þá langar mig að spyrja þingmanninn hvernig sér hann fyrir sér samspil þessara þátta, (Forseti hringir.) erlenda skuldasöfnun á móti lífeyrissjóðakerfið okkar. Þetta sléttast út að nokkru leyti en telur þingmaðurinn að erlendar (Forseti hringir.) eignir lífeyrissjóðanna séu í hættu verði greiðslufall eða svokallað þjóðargjaldþrot?