138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það, vegna þess að núna er skrifað inn í samningana að það sé tekið mið af svokölluðum Brussel-viðmiðum, og búið að taka tillit til þeirra í samningunum eins og þeir eru. Gefum okkur svo að illa fari, sem ég svo sannarlega vona ekki, hvernig metur hv. þingmaður það þá þegar við komum til baka til Breta og Hollendinga, því að mjög margir stjórnarþingmenn halda því fram að við getum alltaf tekið samningana upp aftur þegar okkur hentar og getum þá vísað í Brussel-viðmiðin sem sé þegar búið að skrifa inn í samningana, munu þá ekki Bretar og Hollendingar segja við okkur að það sé þegar búið að viðurkenna að þau viðmið séu inni í samningunum? Hver er skoðun hv. þingmanns á þessu?

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann: Þegar við óskuðum eftir því í minni hlutanum að fá þá manneskju sem hefur hvað mesta þekkingu á Brussel-viðmiðunum, sem er fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, til fundar í fjárlaganefnd til að útskýra sína skoðun, hver þau væru nákvæmlega og hvernig þau væru hugsuð, var henni meinað að koma á fund fjárlaganefndar — hvað finnst hv. þingmanni um slík vinnubrögð?