138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta sem hv. þingmaður nefndi var einmitt eitt af umræðuefnum næturinnar, stjórnarskráin og sá möguleiki að verið væri að brjóta hana. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkar vangaveltur koma upp í þingsal og við þekkjum, held ég, flest einhver dæmi um slíkt. Ég held í að það sé ágætishugmynd að það sé einhvers konar ferli eða apparat sem taki við þegar þessar vangaveltur koma upp. Ég er ekki viss um að það sé rétt að senda Hæstarétti bréf og spyrjast fyrir eins og var gert. Það er þó ein leið. Hitt er í öllu falli ljóst, að þinginu ber að komast til botns í slíkum álitaefnum ef það er á annað borð hægt. Fyrsta skrefið er væntanlega að kalla eftir formlegum álitum.