138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir skýr svör hvað þetta varðar svo það sé á hreinu. Hitt sem mig langar til að vekja athygli á er títtnefnd grein þriggja lögmanna, virtustu lögmanna Íslands eins og það heitir í dag, um hugsanleg stjórnarskrárbrot sem fylgja þessum samningum. Greinina hefur oft borið á góma í ræðum þingmannsins, þar á meðal þeirri síðustu, og reyndar í máli fleiri þingmanna. Í niðurlagi greinarinnar segir að frumvarpið sem slíkt fái varla staðist 1. gr. stjórnarskrárinnar. 1. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“

Telur þingmaðurinn að Ísland verði ekki lýðveldi með þingbundinni stjórn ef þessi lög verða samþykkt á Alþingi?