138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu máli virðumst við stundum vera að spara aurinn og fleygja krónunni, mér skilst að þegar hann bauð fram aðstoð sína hafi hann þótt dýr. Það er væntanlega ódýrara að sitja uppi með þennan samning að mati stjórnvalda.

Varðandi það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi um þá lögfræðinga sem komu á fund fjárlaganefndar verð ég að segja að mér finnst mjög skrýtið — það eru þrjú atriði sem þessir lögfræðingar nefna í þessari grein, það eru sem sagt þrjár greinar stjórnarskrárinnar sem þeir hafa áhyggjur af. Ég er með grein sem viðkomandi lögfræðiprófessor setur sjálf líka inn á heimasíðu hjá sér þar sem hún fjallar um stjórnskipulegan neyðarrétt og þá út frá neyðarlögunum. Það liggja því fyrir gögn um ákveðna túlkun hjá henni varðandi það t.d. hvaða áhrif neyðarlögin hafa. Maður hefði því talið að það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir viðkomandi prófessor að leggja fram skriflega greinargerð, alla vega varðandi álit hennar á því, því að það er eitt af því sem þessir lögfræðingar fjalla um í grein sinni. En af einhverri ástæðu voru þeir ekki tilbúnir til að gera það. Miðað við hve málið er stórt og umfangsmikið hefði fjárlaganefnd átt að gera kröfu um, þó að það hefði kannski þurft að taka aðeins meiri tíma til þess, að þeir skiluðu inn skriflegu lögfræðiáliti á þessu máli. Við hefðum þá öll getað farið í gegnum það. Það er ekki þannig að það sé einhver einn í hverjum þingflokki sem skrifar undir eið að stjórnarskránni heldur gerum það hvert og eitt sem einstaklingar og lofum því að virða hana.