138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel mjög mikilvægt að lýðræðisleg umræða fái að eiga sinn tíma hér. Ég var að vafra á netinu áðan og þá rak ég augun í á einhverri vefsíðu samanburð á málþófi fyrr og nú. Til gamans má geta að einn þingmaður tók meira en 10 klukkustundir í flutning á einni ræðu. Sá þingmaður er reyndar ráðherra núna, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Hún gat ein og sér talað í 10 klukkustundir um eitt mál. Og til gamans hafði eigandi vefsíðunnar reiknað það út að það þyrfti 122 fimm mínútna ræður, eða 60 tíu mínútna ræður eins og við höfum hér, ef við gætum nýtt sama rétt og þessi ágæti þingmaður og ráðherra fékk í einni ræðu.

Ég get líka tekið undir gagnrýni þingmannsins á umræðuna um málþóf og á umfjöllun fjölmiðla. Það er hreint út sagt með ólíkindum þegar maður situr hér alla daga að þá skuli það sem nær í gegn vera ræður stjórnarliða í umræðum um störf þingsins vegna þess að ekki koma þeir upp í efnislegar ræður um málið, og það eru ræður þar sem þeir eru að setja út á ræður okkar í stjórnarliðinu í stað þess að fjölmiðlarnir hafi fyrir því og hlusti á þær efnislegu ræður sem við erum að flytja. Hér hafa komið miklar upplýsingar t.d. um vaxtaútreikninga. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom með feikilega góðar spekúlasjónir um það. Hv. þm. Ólöf Nordal bar á mjög athyglisverðan hátt saman stöðu Íslands og stöðu Dúbaí og hvaða áhrif kreppan þar gæti haft. (Forseti hringir.) Þetta hefur ekki ratað í fjölmiðla, frú forseti, heldur aðeins einhver störukeppni milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málþóf.