138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir velflest af því sem hann talaði um. Ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun minni að það sé algjörlega nauðsynlegt að gera breytingar á þessu frumvarpi, það má ekki fara svona í gegn. Við verðum að tryggja það.

Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og miðað við hvernig málsmeðferðin var í sumar þegar við gerðum breytingar á þáverandi frumvarpi og hvernig málsmeðferðin var núna í nefndinni vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að einhvern tímann hafi staðið til að breyta einhverjum atriðum þessa frumvarps sem hér liggur fyrir.

Það er kannski dálítið skrýtið að maður sé farinn að treysta á hluti eins og undirskriftasafnanir. Núna er mikil undirskriftasöfnun í gangi og seinast þegar ég kíkti voru 22.125 Íslendingar búnir að skrifa undir hjá Indefence-hópnum. Hvað telur hv. þingmaður að muni gerast í því samhengi? Miðað við þær yfirlýsingar sem forseti Íslands gaf þegar hann staðfesti lögin í sumar, hvað telur þingmaðurinn að muni gerast við það að svo margir Íslendingar sem ekki sér fyrir endann á skora á forseta Íslands að beita sér í þessu máli? Telurðu að forseti Íslands hafi eitthvert val ef hann ætli að vera samkvæmur sjálfum sér í ljósi forsögunnar og í ljósi þeirrar yfirlýsingar? (Forseti hringir.)