138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Svar mitt við fyrri spurningunni, hvort meðferð fjárlaganefndar hafi verið með tilhlýðilegum hætti, er að það að við séum að ræða þetta mál hér lengi og ítarlega er algerlega í boði stjórnarmeirihlutans. Ef hann vil kalla þetta málþóf sem ég reyndar hjartanlega ósammála — ég skal tilkynna þeim þegar við hefjum hér málþóf, við erum að ræða þetta efnislega og fara yfir alla þætti málsins. Við sögðum við þá að ef þeir ætluðu ekki að ræða málið í fjárlaganefnd, ræða álitin öll fjögur sem komu frá efnahags- og skattanefnd, hvað þá að ræða málið efnislega í fjárlaganefnd, yrði það einfaldlega gert í sölum Alþingis. Það er einmitt málið.

Nú byrja trommurnar úti á Austurvelli og það er vel við hæfi (VigH: Heyr, heyr.) vegna þess að undirskriftasöfnunin sem á sér stað á heimasíðu Indefence sýnir og sannar að málflutningur okkar hér ber árangur. Þegar fjölmiðlalögin voru ekki samþykkt á sínum tíma og forseti neitaði að skrifa undir var það keyrt áfram af fjölmiðlum. Áróðurinn var keyrður áfram af fjölmiðlum. Nú er það ekki þannig. Fréttablaðið ræðir þetta mál ekkert efnislega. Það kemur bara með fréttir um að við stöndum hér og tölum, segir ekkert um það hvað við segjum efnislega um þetta mál. Þjóðin áttar sig samt á þessu. Ég tel það til marks um það að við eigum að halda áfram að ræða málin, (Forseti hringir.) fá fram skoðanir meiri hlutans og (Forseti hringir.) heyra hvað hann hefur um málið að segja.