138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir áhyggjur hv. þingmanns hvað þessi ákvæði snertir. Ég vil rifja það upp að þegar samningurinn frá því í sumar kom fram, voru gerðar athugasemdir við einmitt þessi ákvæði en því var öllu vísað á brott af stjórnarliðum og ráðherrum sem ómarktækum athugasemdum. Sem betur fer tókst okkur í sumar að opna augu manna fyrir því hversu mikilvægt þetta er. Um það hvort nú sé búið að búa þannig um hnútana að fullnægjandi sé fyrir okkur skal ég ekkert fullyrða, ég hef áhyggjur af því að svo sé ekki. Meginmeinsemdin í þessum samningi er auðvitað sú að hann er að forminu til og reyndar efni einkaréttarlegs eðlis, en ekki þjóðréttarsamningur, þar sem þessi atriði eru afgreidd með allt öðrum hætti en á við hér.