138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir með hv. þingmanni varðandi það að í sjálfu sér er engin ástæða til að afskrifa þann möguleika að málið fari fyrir dómstóla. Vandinn liggur í því að ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að sannfæra umheiminn um að það sé sjálfsögð og eðlileg krafa. Það er það sem þarf að gera.

Varðandi hitt atriðið var það þannig að þegar samkeppnislögin voru sett var þar inni ákvæði, 27. gr., ef ég man rétt, um að dómstólar á Íslandi væru bundnir af niðurstöðu og áliti Evrópudómstólsins eða ráðgefandi áliti frá EFTA, ef ég man þetta rétt, og í því fólst framsal á dómsvaldi. Þá var tekin saman 40 blaðsíðna sérfræðiskýrsla um það hvort þetta stæðist stjórnarskrána. Í þessu máli er það reyndar ekki þannig að Hæstiréttur sé bundinn af þessu áliti en niðurstaða Hæstaréttar skiptir engu máli í samskiptum aðila samningsins nema hún sé samhljóða þessum ráðgefandi aðilum og fyrir mér er það sama niðurstaðan. Það má vera að það gildi sama stjórnarskrárálitaefnið en þetta hefði átt að skoða miklu betur.