138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því mati að núverandi ríkisstjórn er því miður illa treystandi til að nýta þá þó tiltölulega sterku stöðu sem við þrátt fyrir allt höfum enn í málinu, svo ekki sé minnst á ef staðan væri eins sterk og hún var á sínum tíma áður en ríkisstjórnin klúðraði hverju málinu á eftir öðru. En oft og tíðum hefur það ekki aðeins verið svo að það hafi vantað sannfæringuna hjá stjórninni eða viljann til að vinna í þessu. Það þarf ekki að rifja upp hvernig samskiptum við önnur lönd hefur verið háttað, við forsætisráðherra annarra landa. En í því birtist að þetta var aldrei gert að pólitísku máli. Það var aldrei leyst á milli forsætisráðherra, þeir töluðust ekki við, það bárust ekki einu sinni svör við bréfum. Er það ekki einn af grundvallargöllunum á því hvernig á þessu hefur verið haldið að málið hafi ekki verið leyst á þessum pólitíska grunni?