138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Menn hafa komið upp í ræðustól á síðustu dögum undir liðnum fundarstjórn forseta eða í einstaka andsvörum hafa birst stjórnarliðar án þess að þeir hafi mikið komið á mælendaskrá. Úti í samfélaginu spyrja margir sig til hvers þessi umræða sé og af hverju við í stjórnarandstöðunni komum ekki upp og spyrjum þeirra spurninga sem við teljum að þurfi að spyrja og fáum svör við þeim í kjölfarið. Það er akkúrat ágalli málsins. Þrátt fyrir að við komum ítrekað upp og spyrjum spurninga um nýja hluti, því það er svo merkilegt að í þessu stóra máli sem er þó búið að ræða heilmikið, ekki síst ef við tökum sumarþingið með, þá virðist það alltaf vera þannig að það komi upp nýir fletir á þessu gríðarlega alvarlega máli.

Síðast í dag hefur verið rætt hvort það geti staðist að skuldastaða þjóðarinnar sé verri en áður var haldið og fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem nú eru staddir á landinu hafi uppgötvað að svo sé og hafi af því gríðarlegar áhyggjur. Það er auðvitað þannig, alveg sama ef við reynum að einfalda þetta mál, þá hlýtur það að vera í einfaldastri mynd sú stóra spurning sem við stöndum frammi fyrir, hvort við eigum að greiða þessa skuld og á því eru nokkur vafi. Sá helsti er auðvitað að hin margfræga og umrædda Evróputilskipun og hinir stóru gallar um það hvort hún gildi við bankahrun eður ei og það er merkilegt að ekki skuli vera hægt að fá þá lagalegu fyrirvara inn með eins tryggum hætti og hægt er, að það sé ekki hægt að tryggja að þeir séu til að verja hagsmuni Íslands, að ekki sé hægt að ná samstöðu um það í þinginu er auðvitað mjög merkilegt.

Síðan er það hinn þátturinn sem er þó í öllum svona málum þar sem menn eru að velta fyrir sér hvort við eigum að greiða og þá hvað við eigum að greiða og þar stendur hnífurinn kannski einnig í kúnni því það er óljóst með öllu hve hár reikningurinn verður sem við þurfum að greiða þegar upp verður staðið. Þetta atriði getur til að mynda komið inn á hvort það standist stjórnarskrá að við séum að samþykkja eitthvað sem við vitum ekki hvað skuldbindi Ísland fyrir háar upphæðir. Einnig hafa komið upp aðrir hlutir á síðustu dögum og síðustu vikum sem gera það að verkum að við hljótum að spyrja okkur hversu há upphæðin sé sem við eigum að greiða. Ef við eigum að horfast í augu eða trúa því sem sumir halda fram að eignir Landsbankans muni duga fyrir skuldinni og að við munum því fyrst og fremst greiða vextina sem að vísu eru nægilega háir. Þá er rétt að rifja upp að það eru um 100 milljónir á dag, allt að 40 milljarðar á ári sem um er að ræða, og eins og komið hefur fram líka að skattgreiðslur um 80 þúsund greiðenda á Íslandi munu fara til að greiða vextina á þessum tíma þá eru þetta engar smáupphæðir.

Ég notaði hluta af síðustu ræðu minni í gær til að ræða þann þátt að virtir sérfræðingar hafa komið fram á sjónarsviðið sem hafa bent á að hugsanlega ættum við að sitja við sama borð, jafnræðisborð hvað varðar vexti og lánakjör á þessu gagnvart innlánstryggingarsjóðunum, þ.e. sjóðir Íslands, Hollands og Bretlands ættu að sitja við sama borð og þar gæti munað allt að 200 milljörðum. Í umræðum við mig í gær kom hæstv. utanríkisráðherra upp og tók undir að það væri eðlilegt að þetta væri atriði sem hefði komið fram eftir að málið var rifið út úr fjárlaganefndinni og þetta væri atriði sem væri nauðsynlegt að fara yfir efnislega með góðum hætti í nefndum þingsins og athuga hvort þetta gæti hjálpað til því að 185 eða 200 milljarðar eru veruleg upphæð.

Hæstv. fjármálaráðherra hélt langa tölu í gær og fór yfir ýmis mál og lagði ýmislegt til en hann til að mynda sleppti því að koma inn á þetta mál og útskýra fyrir þjóðinni eða þingheimi hvernig þetta gæti staðist, að við þyrftum að búa við þetta óréttlæti. Maður gæti spurt sig: Hvar er nú jafnræði Evrópska efnahagssvæðisins og tilskipana ESB? Ef ríkisstjórnin er með þögn sinni í þessu máli og líka í stjórnarskrármálinu í ræðustólnum að segja að hún hafi ekki getað náð lengra í samningnum þá ættu forsvarsmenn hennar að koma fram og viðurkenna það, viðurkenna að auðvitað sé það rétt að við ættum ekki að láta Breta og Hollendinga kúga okkur og stórgræða á þessari lánastarfsemi, en að ríkisstjórnin hafi ekki náð betri samningum. Ég hef þá trú að almenningur á Íslandi vilji vita það og hvort það sé ásættanlegt að við séum að greiða þessum u.þ.b. 200 milljörðum meira en ella ef tekið væri á málum af sanngirni og réttlæti. Sömu jafnræðisreglum og gilda á EES-svæðinu. Maður gæti sagt: Vont er þeirra réttlæti, frú forseti. Hvernig dettur mönnum í hug að eftir að við höfum tekið þessar byrðar á okkur með því að samþykkja ríkisábyrgðina, að réttlæti þessara þjóða og sanngirni í okkar garð verði eitthvað betri eftir nokkur ár? En nokkrir stjórnarliðar hafa lagt til að við ættum að samþykkja núna og semja aftur seinna og þar á meðal er hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson. Þeir hafa í ræðustól ámálgað það að við ættum að samþykkja þetta núna og reyna að semja síðan aftur seinna.

Fyrir mér er þessu efnisatriði enn ósvarað sem ekki hefur verið farið yfir í nefndum þingsins og hæstv. fjármálaráðherra gerir enga tilraun í gær til að útskýra fyrir okkur í þingheimi eða þjóðinni í ræðu sinni. Auðvitað geta stjórnarliðar sagt að þetta skipti engu máli þar sem þeir ætli samt sem áður að samþykkja frumvarpið. Þeir geta auðvitað sagt að þeir séu tilbúnir til að bera pólitíska ábyrgð á þessu eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni í gær, bera pólitíska ábyrgð á þessu ójafnræði, á þessu óréttlæti. Þjóðin þarf hins vegar að vita það, því það er hún sem á að borga þessa umfram 200 milljarða. Hún þarf að fá útskýringar á því hvort það sé virkilega þannig að þetta jafnræði og réttlæti sé með þeim hætti að við virðumst þurfa að greiða 200 milljörðum meira en við ættum kannski að greiða. Það er ekki víst að þjóðin sé jafnviljug til þess þó að stjórnarflokkarnir séu tilbúnir í hina pólitísku ábyrgð. Ég skil reyndar ekki af hverju við getum ekki verið sammála um það í þinginu að skoða þetta atriði gaumgæfilega. Við getum tekist á um hvort skattar eigi að hækka um 10, 20, 30, 40 eða jafnvel 50 milljarða á ári og við getum líka tekist á um hvort við skerum niður um 5%, 7% eða 10% í einstökum ríkisstofnunum eða ráðuneytum. Allt eru þetta smátölur við hliðina á 200 milljörðum sem sérfræðingar hafa bent á að ósanngjarnt sé að við greiðum. Nóg er samt óréttlætið sem felst í því að taka skuldbindingarnar í heild sinni á íslenska þjóð þó að ekki sé verið að okra á lánastarfseminni um leið.

Frú forseti. Ég tók líka eftir því í gær að hæstv. fjármálaráðherra minntist ekki einu orði á þann vafa sem helstu lögspekingar okkar hafa bent á síðustu daga er varðar frumvarpið og stjórnarskrána. Þó nokkrir þingmenn hafa rætt þetta atriði ítarlega í gær og aftur í dag og ég hef a.m.k. ekki heyrt nein stjórnarliða gera heiðarlega tilraun til að eyða þeim vafa sem um málið ríkir, ekki úr ræðustól. Er það óþarfi? Skiptir það engu máli fyrir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans? Ætla þeir samt sem áður að samþykkja frumvarpið?

Ég get heldur ekki skilið það, frú forseti, að við þingmenn allir getum ekki sammælst um að tryggja að frumvörp sem eiga að fara í gegnum þingið standist stjórnarskrána. Nokkrir þingmenn, og það gildir það bæði um stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, hafa talað um að það liggi ekkert á í þessu máli. Við gætum tekið á dagskrá mikilvæg mál er varða fjárlög og tekjuöflun ríkissjóðs. Ég tek heils hugar undir þau orð. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að nauðsyn sé að ljúka þessu máli eins ófrágengið og það er. Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra kom ekkert fram sem sagði okkur að það bráðlægi á því. Hann spurði hins vegar á móti hvenær við ættum að ljúka því, hvort við gætum gert það í janúar eða febrúar eða hvenær sem væri. Ég ætla að leggja til við ríkisstjórnina, af því að hún hefur kallað eftir því, og stjórnarliða að taka málið aftur inn í nefndir til að vinna það betur næstu vikur og taka það á dagskrá aftur að því loknu hvort sem það yrði í febrúar eða mars. En eins og fram hefur komið í nokkrum ræðum þingmanna þar sem m.a. er vitnað í Lee Buchheit, sem ég kom aðeins inn á í fyrri ræðu minni, þá ráðlagði hann okkur að bíða, finna undirstöður okkar eftir hrun, safna stuðningi með því að senda þingmannasveit út í heim og ræða við kollega sína og reyna að ná samstöðu um að verja lágmarksjafnræði og réttlæti í þessu vægast sagt ömurlega máli.