138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ræðu hans. Það kom fram í máli hans að sífellt væru nýir fletir á þessu stóra máli sem vert væri að velta fyrir sé en ég hnaut ekki um þá í hans ræðu, það getur verið að þeir hafi komið fram í einhverri af fyrri ræðum hans.

Ég vil í upphafi taka upp það álit hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að gott væri að hafa dýralækni í þessu vegna fjárskorts eða fjáröflunar. Ég bendi á það sem víti til varnaðar að hér var dýralæknir í ráðherrastól ekki fyrir löngu sem reyndist ekki vel. Ég tel að það segi ekki mikið um dýralækna almennt. Ég tel hins vegar að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kunni að reynast betur á sínum eigin verðleikum heldur en því að vera menntaður dýralæknir.

Ég hnaut sem sagt ekki um margt eða nánast ekki um neitt í ræðu hv. þingmanns sem kalla mætti nýja fleti á málinu. Hann ræddi hvort ekki mætti ná samstöðu á þinginu um þetta mál. Það var upplýst um miðjan október, af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, á tröppum Stjórnarráðsins, að þeir mundu ekki vilja ná sáttum um þetta mál. (Gripið fram í: Ha!) Hv. þingmaður sagði að upphæð skuldbindinganna væri ekki ljós. Upphæðin er skýr, hún er skýr í samningunum í erlendri mynt, annars vegar í enskum pundum og hins vegar í evrum, alveg hvellskýr. Hún er skýr í íslenskum krónum eins og gengið var skráð 22. apríl, alveg hvellskýr. Að öðru leyti lýtur þetta lán, eins og öll önnur lán í íslenskum krónum, ákveðinni gengisáhættu og það er ekkert nýtt við það í þessu láni frekar en öllum öðrum lánum íslenska ríkisins og Íslendinga sem skulda erlendis. (HöskÞ: Hver er skuldin?)