138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég sé sammála því að þetta brjóti 40. gr. stjórnarskrárinnar. Nú viðurkenni ég það að ég er ekki löglærður maður og geri mér enga grein fyrir því. Ég tek hins vegar mjög alvarlega ábendingar þeirra ágætu manna sem benda á að þarna sé hugsanlega hætta á ferðum. Ég teldi eðlilegast og bara bráðnauðsynlegt að við fengjum úr þessu skorið og hef talað fyrir því að núna væri skynsamlegt og eðlilegt að málið færi til fjárlaganefndar og við fengjum sérfræðing í stjórnarskrárlögum til að skila áliti til fjárlaganefndar um þetta mál vegna þess að ég þekki þetta ekki persónulega. Þess vegna er mikilvægt að við séum ekki að taka neina áhættu í þessum málum því að eins og ég sagði í ræðu minni þá tek ég þessar ábendingar mjög alvarlega. Ég tel það skyldu okkar í fjárlaganefnd að taka málið inn og fjalla sérstaklega um þetta og láta gera greinargerð um það hvort einhver vafi leiki á þessu. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur því að við megum ekki umgangast stjórnarskrána eins og hvern annan pappír, enda ætlast ég til þess og vonast til að ekki verði neinar deilur um og slíkt verði gert.

Hv. þingmaður kom líka inn á kröfurnar. Auðvitað er það þannig, eins og með Ragnars H. Halls-ákvæðið þar sem var búið að gera samning um að lagskipta kröfunum sem var náttúrlega alveg með eindæmum, það var búið að gera það inni í samningunum áður. Auðvitað veltir maður því fyrir sér og við þekkjum alla umræðuna sem varð um það í fjárlaganefnd í sumar. Þetta eitt og sér getur skipt tugum milljarða og það liggur ekki fyrir hvernig þetta verður vegna þess að nú er búið að setja ákveðna EFTA-krækju á þetta með þeim hætti að leita þurfi ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum. Ég minni á að einn lögfræðingur, Stefán Már Stefánsson, benti á það einmitt á fundi í fjárlaganefnd að hugsanlega gætu orðið deilur um niðurstöðu EFTA-dómstólsins þó að hún væri kannski í samræmi við dóm Hæstaréttar. Það eru því margir óvissir fletir í lögfræðihluta þessa máls.