138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú er ég ekki í fjárlaganefnd og hef þar af leiðandi kynnt mér málið af umræðum og viðræðum við fulltrúa í fjárlaganefnd og þeim gögnum sem hér hafa legið fyrir. Hv. þingmaður nefndi Lee Buchheit, sérfræðing í erlendum lánaskilum og samningum á milli þjóða, og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt munað hjá mér að eins og hv. þingmaður vitnaði til hafi Buchheit einmitt talið eðlilegast að við ættum að bíða af okkur storminn og sjá hvernig staðan yrði þá, að í raun og veru hafi hann sagt að samningurinn væri það slæmur að hvernig sem allt færi þá ættum við og yrðum alltaf að fara til Breta og Hollendinga og semja upp á nýtt. Er þetta rétt eftir honum haft? Og er sú staða sem við erum í núna með þennan viðauka við samninginn í frumvarpinu sú ásættanlega staða sem Lee Buchheit velti fyrir sér á sumarþinginu?