138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir að koma í andsvar við mig. Þar sem hann spyr mig hvort þessir þrír lögfræðingar hafi ekki sagt að alveg klárt væri að þetta stangaðist ekki á við stjórnarskrána þá verð ég að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þetta er eini fundur fjárlaganefndar sem ég hef ekki mætt á síðan í vor. (Gripið fram í.) Hv. þm. Bjarni Benediktsson mætti á fundinn fyrir mig vegna þess að ég þurfti að vera við jarðarför og þetta er fyrsti fundurinn og eiginlega fyrsta mínútan sem ég sit ekki á fundum fjárlaganefndar alveg frá því að við komum saman snemma vors á þinginu.

Í máli margra hv. þingmanna hefur komið fram, sem ég tel mjög skynsamlegt og gott, að eðlilegast væri að þessir ágætu lögfræðingar sem telja að ekki sé verið að brjóta stjórnarskrána — eins og ég sagði áðan þá hef ég ekki lögfræðilega þekkingu á því — skrifuðu greinargerð um það sem væri þá aðgengileg öllum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum þó að þeir eigi ekki endilega sæti í fjárlaganefnd. Ég tel að það væri mjög mikilvægt, því gott væri fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, sem efast hugsanlega um að þetta samræmist íslenskri stjórnarskrá, að geta vegið og metið rökin með og á móti. Komi fram skýr afstaða frá þessum ágætu þremur lögfræðingum sem sátu þennan fund, þá er það bara gott og þá er hægt að útkljá málið og þá þurfum við ekki að rífast um einhver lagaleg álitamál, sem ég hef reyndar persónulega ekki mikið vit á þannig að fólk sem þekkir þessi mál mikið betur en ég verður að vera haldreipi mitt. Það er mjög mikilvægt að greinargerð verði gerð og að þessi vinna fari inn í fjárlaganefnd því þá geta hv. þingmenn haft það haldreipi sem þeir þurfa til að taka (Forseti hringir.) ákvörðun.