138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Eins og kom fram í máli hans er dómsdagur enn og aftur bæði kominn og farinn og enn hefur ekkert gerst. Sólin kemur upp á morgnana og sest svo síðdegis þannig að mann grunar að hótanirnar séu frekar innantómar.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara betur út í það hvaða gagna hann saknar enn. Hvað þurfum við að fá fram í viðbót? Hvað er það sem við höfum ekki rætt í fjárlaganefnd?

Svo væri ágætt að við veltum fyrir okkur, af því að við erum öll á sama báti, hvernig við eigum að klára þetta mál. Við þurfum klárlega að finna út úr því hvort við getum greitt og við þurfum líka að gera upp við okkur hvort það sé heiðarlegt af okkur að taka á okkur skuldbindingar sem er líklegt, eða líklegra en ekki, að við getum ekki staðið undir. Það væri ágætt að fá að heyra vangaveltur hv. þingmanns um þessi atriði.