138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra sé í húsi og ég fagna því sérstaklega að hún leggi sig fram um að hlusta á ræður okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Ég hafði reyndar ekki búist við neinu öðru, en ég held að það sé mjög brýnt að við fáum úr því skorið hver segir satt og rétt frá í þessu máli. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þvertekið fyrir að tengsl séu á milli Icesave eða deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga og þeirrar fyrirgreiðslu sem sjóðurinn ætlar að veita Íslendingum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að þetta er hluti af hræðsluáróðrinum sem hefur dunið á íslensku þjóðinni að undanförnu en engin rök hafa verið færð fyrir.