138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:14]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi koma upp til að þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fyrir ræðuna. Hún hefur oft komið í ræðustól og verið hreinskipt og beinskeytt og talað beint frá hjartanu. Það ætla ég líka að gera.

Á árinu 2008 var 185 milljarða kr. halli á ríkissjóði, árið 2009 sama fjárhæð. Árið 2010 stefnir í sömu fjárhæð, 185 milljarða kr. Þjóðin er í miklum þröngum, þjóðin er í mikilli neyð. Þegar við vinstri græn komum að ríkisstjórnarborðinu var skuldin, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, 2.300 milljarðar kr. Það var þrotabúið sem við tókum við, 2.300 milljarðar. Nú stöndum við frammi fyrir tveimur afarkostum sem eru mér afar þungir, að segja já eða nei. Þetta er þungbærasta raun sem ég hef staðið frammi fyrir á mínum pólitíska ferli. 2.300 milljarðar, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Icesave-reikningurinn bætir á það 10–15%.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, eigum við að berjast eða eigum við að gefast upp?