138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu ætlum við að berjast. Uppgjöf á ekki að vera til. Mér er fullkunnugt um að í október árið 2008, hv. þm. Atli Gíslason, varð hér hrun þriggja banka. Hér hrundi fjármálakerfi þjóðarinnar. Mér er jafnkunnugt um það og hv. þingmanni. Ég er Íslendingur og bjó í þessu landi á þessum tíma og ég var jafnframt þingmaður og vissi hvað hér fór fram, þannig að mér er fullkunnugt um hrunið. Mér er líka fullkunnugt um hver halli ríkissjóðs er. En af því hv. þm. Atli Gíslason spurði: Eigum við að gefast upp eða berjast? segi ég, hæstv. forseti, við hv. þm. Atla Gíslason: Við skulum berjast. Við skulum berjast saman gegn Hollendingum og Bretum, gegn þeim afarkostum sem hér eru settir í þessu frumvarpi og í þessum lánasamningum, þeirri skilyrðislausu uppgjöf sem í þeim felst, segja nei og byrja upp á nýtt, hv. þm. Atli Gíslason, reyna að semja upp á nýtt. Þar sem ég þekki til hv. þingmaður, og samningum hefur verið hafnað, reyna menn upp á nýtt að semja. Með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni, læt ég hann ekki segja mér að það sé ekki verk sem er vinnandi.