138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum velt vöngum yfir því hver tefur hvað í þessu máli og hver er hugsanlega að brjóta stjórnarskrá og hitt og þetta, en ég bendi hv. þingmanni á að sama málfrelsi gildir um stjórnarandstöðuþingmenn og stjórnarliða. Mér þykja reyndar stjórnarliðar lítið hafa nýtt sér málfrelsi sitt hér í ræðustól og kalla eftir því, það er full ástæða til þess. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, ef vafi ríkir um stjórnarskrána sem ekki bara þessir þrír lögmenn hafa efasemdir um, heldur fleiri, og margir þingmenn, ber þinginu og alþingismönnum að láta skoða það til hlítar. Við skrifum undir sama eið, við hv. þingmaður, það er alveg rétt en ég er ekki jafntilbúinn og hv. þingmaður til að (Forseti hringir.) hafa efasemdir um það hvort ég sé að brjóta hann eða ekki.